Færsluflokkur: Bloggar
23.10.2008 | 17:28
Allt að verða vitlaust.......
Ég á ekki til orð. Það kemur smá snjórkoma og allt verður vitlaust. Foreldrum var skipað að sækja börnin í leikskólann um þrjú leitið og fólk þurfti að skrópa úr vinnunni. Búðum lokað og Spurningarkeppnin Drekktu betur fellur niður vegna veðurs. Eru allir orðnir veruleikafyrtir? Halló!! Við búum á Ísafirði. Það hefur nokkrum sinnum áður verið meira óveður en þetta.
Sem betur fer var opið á bensínstöðinni og ég gat keypt mér kók og prins og gengið heim í rólegheitunum og látið vindinn leika um hárið. Mér var að vísu svolítið kalt á höndunum en það var nú aðallega vegna þess að búðin sem ég ætlaði í til þess að kaupa mér vettlinga í var búin að loka snemma vegna veðurs.
Bloggar | Breytt 24.10.2008 kl. 08:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2008 | 22:30
Ég skammast mín..........
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar blés til krísufundar í síðustu viku vegna "ástandins". Þar mættu um 50 manns og voru þeir látnir faðmast, haldast í hendur og grenja saman eða eitthvað álíka fíflalegt. Og ég verð að segja "hvaða rugl er þetta?"
Ég veit ekki með aðra en ég hafði alla vega hugsað dæmið þannig að við gætum nýtt okkur þetta "ástand", stöðvað fólksflóttann og fengið til okkar fólk þegar það getur ekki lengur búið í brjálunni á Reykjavíkursvæðinu. Gert fólki grein fyrir því að hér sé samfélag laust við kreppu og áhyggjur. Að hérna eigi fjölskyldur húseignir sem kostar bara nokkrar milljónir (ekki tugir milljóna) og hérna skuldi fólk bara fáar milljónir í íslenskum krónum (við fengum ekki myntkörfulán til húsnæðiskaupa). Fólk hér muni því ráða við að greiða af sínum lánum. Hér geti fólk auðveldega sparað í bifreiðkostnaði og á fleiri sviðum er þörf krefur. Þvílíkur lúxus! Paradís á jörð! (alla vega á Íslandi)
En neeeeei, það þurfti endilega að taka þátt í kreppukrísunni alla leið, faðmast, grenja, og bera sig aumlega og láta alla heimsbyggðina halda að hér sé allt í kalda koli. Og um að gera að auglýsa það vel og vandlega í fjölmiðlum.
Það eru örugglega einhverjir bæjarbúar sem hafa misst einhvern pening (og þá aðallega gróða) við fall bankanna. Ég segi þá bara við þá það sama og ég sagði við fólk sem ætlaði aðfara að vorkenna mér þegar ég fékk nokkrar milljónir í hausinn vegna gjaldþrots fyrirtækis sem ég átti hlut í "iss þetta eru bara peningar".
Bæjaryfirvöld ættu að skammast sín. Ef einhvern tíman hefur verið tilefni til að hóa fólki saman til þess að haldast í hendur, grenja saman og stappa stálinu hvort í annað þá var það þegar kvótinn var seldur burt og íbúar í bæjum og þorpum landsins voru skildir eftir í lausu lofti með ekkert framundan nema verðlausar eignir og svartnætti. Þá hefði örugglega verið þörf á slíkum fundi.
Að lokum setning sem á vel við og við félagarnir notum óspat á hvort annað þegar einhver er að tuða um eitthvað ómerkilegt:
"farð´ekk´að grenja!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.1.2008 | 10:50
Blogg..slogg....
Ég er að spá í að hætta þessu bloggi. Nennissekki.
Það er hvort sem er enginn að fylgjast með.
Held kannski þessari síðu til þess að kommenta hjá öðrum.
En bloggvinir geta strokað mig út og Skutull líka.
Bless! sjáumst á röltinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.1.2008 | 08:51
Kíkið á þetta
Segiði svo að maður geti ekki haft áhrif í heiminum
http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item186293/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.1.2008 | 14:42
Annáll 2007
Árið 2007 var mjög gott ár fyrir mig
og einnig viðburðaríkt og skemmtilegt.
Janúar byrjaði með því að ég lét plata mig í þorrablóts-skemmtinefnd Hnífsdælinga og fór janúar því mikið í fundi vegna þess. Ótal hugmyndir fæddust, flestar frábærar, en sú sem stóð upp úr fyrir mér eru níðvísurnar sem við Matthildur sömdum um nokkra góðborgara Hnífsdals. Létum við það slúðrast út að möguleiki væri á því að einhverjir myndu yfirgefa samkvæmið sökum móðgunar.
Metaðsókn var á þorrablótið sem var haldið 3. febrúar og skemmtiatriðin almennt talin mjög fyndin þrátt fyrir að flest atriðin hafi verið algjörlega óæfð. Ballið var líka skemmtilegt og mikið dansað. Við Matthildur sóttum svo um inngöngu í kvennfélagið Hvöt á aðalfundinum og vorum við samþykktar með það sama og það var ekki nema ein kona sem sagði sig úr félaginu við það tilefni. Hugmynd um að halda óbeislaða fegurðarsamkeppni kom upp í febrúar og samin var fréttatilkynning sem sett var í nokkra fjölmiðla og önnur höfð tilbúin til þess að bakka með fyrirbærið en til þess kom þó aldeilis ekki.
Grímuballið var haldið í byrjun mars í 9. sinn og ég var í stökustu vandræðum, aldrei slíku vant, að finna mér búning. Endaði sem "bleika-konan" í öllu bleiku með bleika málningu og bleika hárkollu og var eiginlega dáldið flott en vann þó ekki til verðlauna. Vinna við óbeislaða fegurð hélt áfram og nóg var að gera hjá Matthildi sem gerðist fjölmiðlafulltrúi fyrirbærisins. Hún fór í á annan tug viðtala við erlenda fjölmiðla. Þar var Bretland fremst í flokki og nokkur viðtöl voru við BBC en annars höfðu allskonar fjölmiðlar samband allt frá Svíþjóð til Ástralíu. Keppendur skráðu sig í hrönnum og ákveðið var að halda keppnina á síðasta vetrardag í Hnífsdal.
Í apríl voru páskarnir og allt fjörið sem þeim fylgir. Aldrei fór ég suður var haldið á nýjum stað, í skemmu á höfninni og reyndist hún eiginlega of lítil. Mér fannst Sprengihöllin langbest af því sem ég sá. Hún spilaði á vondum tíma, einhverntíman á milli kl. 18 og 19 á laugardeginum, enda óþekkt þá en er pottþétt hljómsveit ársins nú þegar árið er liðið. Bærinn var fullur af fólki alla páskana og margar stjörnunar sem dvöldu hér allan tíman. Í apríl fór líka loka undirbúningur óbeislaðra fegurðar á fullt og unnið var dag og nótt síðustu sólarhringana fyrir keppnina. Keppnin var svo haldin með pompi og prakt síðasta vetrardag fyrir troðfullu húsi og varð algjörlega ógleymanleg öllum þeim sem á staðnum voru. Það besta var samt að kvikmyndagerðarmennirnir Hrafnhildur og Tína mættu á svæðið og veittu okkur eftirför í tvo daga og kvikmynduðu fyrirbærið og gerðu það ódauðlegt. Ég sótti um vinnu sem auglýst var hjá VÍS í byrjun apríl og var ráðin og hóf störf í lok mánaðins og var ég þá komin með vinnu allan daginn sem var eitthvað sem ég hafði stemmt að í rúmt ár.
Í maí gerðist það helst að við afhentum Sólstöfum afrakstur óbeislaðrar fegurðar og þegar allt var tínt til stóð þetta í hálfri millu sem er dágott og allir glaðir með það.
16. júní fórum við Hvatarkonur í dagsferð um Vestfirði. Lagt var að stað kl. 10 frá Ísafirði og ekið til Bíldudals með nokkrum stuttum stoppum. Á Bíldudal var snæddur hádegisverður á Vegamótum og síðan haldið áfram og komið við í sjoppum á Tálknafirði og Patró. Síðan var haldið í Breiðavík, stað sem öðlaðist landsfrægð á svipstundu þetta árið en þó á neikvæðan hátt. Þetta er frábær staður þó svo að fyrri saga sé vond og óþægileg þá er viðmótið þarna í dag algjörlega til fyrirmyndar. Við fengum á sjá fanga-herbergið í kjallaranum þar sem drengirnir voru læstir inni, þar var mjög sérstakt andrúmsloft. Staðarhaldari tjáði okkur að það kæmu ekki Íslendingar lengur á staðinn og fjöldinn hafði afpantað gistingu. Maður spyr sig, hvað er að fólki? Við fórum svo á Látrabjarg og svo ver stefnan tekin á Flókalund í 3 rétta kvöldverð. Við komum þó við á Vaðli þar sem við Elín systir stærðum okkur af ættaróðalinu í þessu stórkostlega umhverfi. Máltíðin í Flókalundi var fullkomin og allar konurnar sammála um það. Við komum svo heim einhverntíman eftir miðnætti eftir mikið fjör í rútunni á heimleiðinni. 17. júní var frekar ömurlegur þá aðallega vegna þess að hann var á sunnudegi og því ekkert aukafrí. Það á auðvitað bara að banna þetta. Annars var júní svo sem ágætur og góða veðrið sem einkenndi sumarið byrjaði í júní með sangríu og tilheyrandi sólböðum.
Það var ættarmót hjá föðurættinni minni helgina 13.-15. júlí í fyrsta sinn í 11 ár. Það var góð mæting og sólin skein sem aldrei fyrr þetta sumarið. Við fjölskyldan komum sólbrend heim. Ótrúlega gaman að hitta ættingjana og djamma með þeim. Það var auglýst eftir skemmtiatriðum á kvöldvöku sem haldin var á laugardagskvöldið og ákváðum við nokkur í græna liðinu að æfa fjöllista atriði og skírðum hópinn Kus-Kus frá Vaðli. Við vorum með söng og dans sem féll í kramið hjá flestum en þó heyrðust raddir sem vildu stöðva athæfið. Náðist atriðið á myndband og er sem sagt ódauðlegt.
Í ágúst bar auðvitað hæst mýrarboltamótið sem var að þessu sinni á verslunarmannahelginni. Glyðrur og Glommarar Langa Manga tóku þátt annað árið í röð og mikið var lagt í búninga. Setið var við sauma í marga daga og alls voru útbúnir um 70 búningar þ.e. bæði kvenna og karla og fyrir tvo daga því að sjálfsögðu stefndum við á úrslitakeppnina sem var á sunnudeginum. Markmið hjá Glyðrum var sett á að skora mark en það tókst því miður ekki en við komumst samt í 8 liða úrslit á einhverjum 2 steindauðum jafnteflum og gefnum leik. Glommarar komust líka í úrslit og spiluð einn skemmtilegasta leik mótsins sem endaði í hörku vítakeppni þar sem Glommarar töpuðu með einu marki. Í lokahófi Mýrarboltafélagsins varð Gló Magnaða fyrir valinu sem skemmtilegasti leikmaður mótsins og hélt uppi heiðri Langa Manga liðanna því að þetta var eina viðurkenningin sem kom í hlut Glyðru og Glommara þetta árið. Þann 18. ágúst var svo hinn árlega Lubbahátið sem tókst glimrandi eins og síðustu árin og enn klikkar ekki veðrið á þessum viðburði sem er hin mesta snilld. Á nýja árinu stendur til að halda líka jónsmessulubba og ef af verður mun maður að sjálfsögðu velta sé upp úr dögginni í þessu flotta umhverfi.
Í september fór ég í sveitina mína gisti eina nótt og fór svo á harmonikuball á Tálknafirði en það var nú aðallega vegna þess að kallinn var fenginn á trommurnar og ég fékk að fljóta með. Ég fór að hjálpa til í miðasölu og fór svona öðru hvoru inn til þess að kíkja á fólkið dansa. Gaman að horfa á fólk dansa gömludansana sem kann það vel. Við gistum svo í hinum stórglæsilegu sumarhúsum sem byggð voru fyrir sjóstangveiðina á staðnum. - Ég fór einnig til Reykjavíkur á milli flugvéla og það er mjög spes, aldrei prófað það áður.
Október var mjög viðburðaríkur. Hann byrjaði á því að það fór heill her frá Ísafirði í borg óttans á frumsýningu á myndinni óbeislaðri fegurð. Það var stútfullt bíó og við fréttum það seinna að það hefði verið uppselt á allar sýningar myndarinnar. Við fórum líka í frumsýningarpartý og hittum Þorstein Joð sem tók viðtal við Matthildi og Hrafnhildi. Við fórum líka nokkur út að borða kvöldið eftir og fórum á pöbbarölt. Mjög skemmtileg ferð. Myndin var síðan sýnd í Ísafjarðarbíó þann 26. á vertarnóttum en kvisast hafði út að myndin yrði sýnd fljótlega í sjónvarpinu þannig að það komust fleiri að en vildu en stemmningin var góð, rauður dregill fyrir utan og smá frumsýningarpartý eftir sýninguna. Afhenntir voru tveir aukatitlar. Ásthildur fékk inngöngu í félag athyglissjúkra og Matthildur afsalaði sér micheleen titlinum til Barða. - Fjölskyldan sat sveitt við að gera nýja heimasíðu bgmusik.is til þess að færa tengdapabba í afmælisgjöf en hann varð sjötugur þann 15. Síðan heppnaðist frábærlega og fékk þúsundir heimsókna fyrstu vikurnar. Menningarnefnd bæjarins hélt síðan uppá afmæli kappans með því að bjóða öllum bæjarbúum til veislu í Edinborgarhúsinu þann 27. Þar mætti ég og mínir og fengum að vita það að við ættum vís sæti á fremsta bekk. Þegar til kom þá var aðal kall bæjarins búinn að taka frá sætin okkar fyrir sig og sína og benti mér á að það væri laust aftast.
Nóvember var frekar rólegur og helst að nefna að óbeisluð fegurð var sýnd í sjónvarpinu og enn og aftur var maður stoppaður út á götu og þökkuð skemmtunin. - Ég náði upp skuldahalanum og kláraði að borga alla reikninga úr heimabankanum og átti afgang og keypti mér......... Gamli vinahópurinn hittist og skellti sér á ball. Það var bara alveg ágætt nema mér finnst Edinborgarhúsið sem ballið var haldið í bara alltaf leiðinlegt. Er búin að gefa því nokkra sénsa en kann engan vegin við að skemmta mér þar. Þetta hús átti að vera Menningarhúsið okkar með stóru emmi en hefur brugðist og er eiginlega bara unglingabúlla. Mjög leiðinlegt en satt.
Í desember var eiginlega alveg brjálað að gera í partýstandi ég fór á tvö jólahlaðborð, bæði á hótelinu og brúðkaup hjá Kristínu og Einari. Partý hjá tengdó, sem haldið var fyrir þá sem spiluðu á afmælisballinu í október, jólapartý hjá Gunnu, Litlu jól Langa Manga ég veit ekki hvað og hvað. Jólin voru svo nánast bara át og afslöppun. Keyptum enga flugelda í ár en horfðum á hina og það var bara ágætt. Óbeisluð fegurð kom í áramóta-annál á rúv og áramótaskaupið var mjög fyndið.
GLEÐILEGT ÁRIÐ 2008
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.12.2007 | 15:45
Lítil sönn jólasaga
Þegar ég fæddist var Elín amma mín 77 ára gömul og bjó á heimili okkar. Ég hef oft hugsað hvað ég var rosalega heppin að fá að alast upp með ömmu minni því hún var í rauninni besta vinkona mín og við bröllum ýmislegt saman því að amma var mikill prakkari og ég viðurkenni nú alveg að ég hafði ekkert rosalega mikið á móti því að prakkarast aðeins sjálf.
Það var eitt sinn rétt fyrir jólin að við amma vorum einar heima. Ég hef verið u.þ.b. 10 ára og amma þá 87 ára. Jólapakkarnir voru farnir að streyma inn og við amma áttum báðar marga pakka. Ég man að ég fékk alltaf um það bil 25 - 30 pakka og amma fékk ennþá fleiri. Við erum sem sagt einar heima og amma stingur upp á að við tökum sitt hvorn pakkann, hún einn af sínum og ég einn af mínum, og kíkjum í þá og lokum þeim svo aftur. Ég var auðvitað alveg til í það. Við tókum svo til við að opna pakkana. Ekki man ég lengur nákvæmlega hvað var í mínum pakka, það var alla vega eitthvað dót. En í ömmupakka var bók, ástarsaga, sem hét Blærinn í laufi eftir Einar frá Hergilsey, sveitunga okkar, og ömmu þótti mikið til koma og ég man hvað hún var glöð að fá þessa bók. Við gengum svo frá pökkunum aftur svo að enginn tæki eftir því að við hefðum átt við þá og þetta var leyndarmálið okkar.
Svo kom aðfangadagur og eftir að búið var að borða og opna jólakortin, sem manni fannst skipta hundruðum, það tók alla vega eilífðar tíma, þá var tekið til við að opna pakkana. Amma hafði varla við að opna vegna fjölda pakkana sem hún fékk og þegar henni var réttur pakkinn sem hún hafði kíkt í nokkrum dögum áður þá stakk hún honum á bak við sig í sófann og ákvað að geyma hann. Svo klárar hún að opna pakkana í rólegheitunum, lítur svo yfir gjafirnar sínar og fer að skoða betur. Svo segir hún "Hvar er bókin eftir hann Einar?" Úps.. þegar betur var að gáð var pakkinn óopnaður á bak við ömmu í sófanum. Þannig komst upp um okkur því að við gátum ekki afsakað þetta enda minnir mig að öllum hafi fundist þetta svo fyndið að við skömmuðumst okkar eitthvað sára lítið fyrir uppátækið.
Gleðileg Jól allir ..........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.12.2007 | 15:20
Jólin eru að koma eins og óð fluga.
Í dag er ég tiltölulega laus við allt sem gæti kallast jólastress og er bara að dinglast og djamma í desember. Það er svo sem ekki nema um það bil 10 ár síðan að ég tók að fullu þátt í öllu brjálæðinu. Bakaði 25 sortir af smákökum og gerði alla íbúðina hreina hátt og lágt og jólin komu ekki fyrr en maður hafði þrifið alla skápa og tekið bæði eldavél og ískáp fram og þrifið þar á bak við. Það var bara vakað til þess að klára þetta allt saman og maður svaf líka meira og minna öll jólin alveg drulluþreyttur.
Í dag eru tvær vikur til jóla og ég er ekki búin að baka neitt, ekki búin að kaupa nema 3 jólagjafir af einhverjum 30, ekki byrjuð að huga að jólakortum (sem ég geri alltaf sjálf), ekki búin að skreyta nema setja upp nokkrar seríur í gluggana, ekki búin að þrífa neitt extra og ekki búin að ákveða allan jólamatinn hvað þá kaupa hann nema eina stóra hænu sem ég kippti með úr Bónus þegar ég var á ferð þar í síðustu viku.
Og málið er að mér líður ágætlega og er sallaróleg yfir þessu. Ég er sannfærð um að jólin koma hvort sem ég klára eitthvað af þessu sem ég á eftir eða ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.12.2007 | 12:59
Held ég aki heim.....
Ég hef alltaf verið frekar grobbin með það hvað ég geng mikið og tel það ekki eftir mér að arka upp og niður urðavegs og bæjarbrekku stundum oft á dag.
En..... núna er það orðið slæmt fyrir umhverfið. Hvað næst???
Ganga skaðlegri en akstur? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.11.2007 | 18:12
Fyrirtækjakariókí
Karióki keppni fyrirtækja verður haldin á Langanum Manga á morgun (föstudag). Nú verða allir að halda undankeppni í vinnunni sinni og mæta með fulltrúann kl. 22:00.
Ég er ótrúlega heppin vegna þess að ég vinn á tveimur litlum vinnustöðum svo að líkurnar eru um það bil 2 á móti 7 að ég keppi Ég er að vísu að fara á jólahlaðborð (chistmaslodedtable) þannig að það fer líka eftir því hvernig gengur að hlaða í sig, hvort maður mæti tímanlega. Ótrúleg spenna.
Svo er ýmislegt sem þarf að athuga. Það þarf að finna viðeigandi lag, sýna útgeislun, túlkun og nota sviðið. Úff... þetta verður erfitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.11.2007 | 11:29
Sagan endalausa.....................
Litla hugmyndin um óbeislaða fegurðarsamkeppni, sem við vinirnir fengum og ákváðum að nota, er endalaust að gefa til baka og sagan heldur áfram.
Í DV á helginni skrifar blaðakona um ferð sína á Ísafjörð fyrir skömmu og hvernig hún sá óbeislaða fegurð í öllu sem á vegi hennar varð.
Nokkrar staðreyndarvillur voru í frásögn hennar en það er bara skemmtilegra.
Hún húkkaði sé far frá flugvelli í bæinn og fór í Gamla bakaríið og fylgdist með manni á tali við afgreiðslukonuna sem var um sextugt líklega dönsk og tók þátt í óbeislaðri fegurð. En keppnin var sýnd í sjónvarpinu kvöldið áður. Keppendur þurftu að vera 40+ og urðu að eiga börn. Svo hélt hún áfram ferð sinni um bæinn og hitti Matthildi sem einnig hafði tekið þátt í keppninni og verið töluvert áberandi í myndinni. Svo fór þessi kona á bókasafnið og þaðan í leigubíl inn á flugvöll og þar hitti hún Mugison og Mugipabba og sá að sjálfsögðu mikla óbeislaða fegurð í þeim. Þessi blaðakona tók það sérstaklega fram hve stolt hún væri af því að vera ættuð að vestan.
Skemmtileg grein sem ég hvet alla þá sem eiga helgarblað DV að lesa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)