4.1.2008 | 14:42
Annáll 2007
Árið 2007 var mjög gott ár fyrir mig
og einnig viðburðaríkt og skemmtilegt.
Janúar byrjaði með því að ég lét plata mig í þorrablóts-skemmtinefnd Hnífsdælinga og fór janúar því mikið í fundi vegna þess. Ótal hugmyndir fæddust, flestar frábærar, en sú sem stóð upp úr fyrir mér eru níðvísurnar sem við Matthildur sömdum um nokkra góðborgara Hnífsdals. Létum við það slúðrast út að möguleiki væri á því að einhverjir myndu yfirgefa samkvæmið sökum móðgunar.
Metaðsókn var á þorrablótið sem var haldið 3. febrúar og skemmtiatriðin almennt talin mjög fyndin þrátt fyrir að flest atriðin hafi verið algjörlega óæfð. Ballið var líka skemmtilegt og mikið dansað. Við Matthildur sóttum svo um inngöngu í kvennfélagið Hvöt á aðalfundinum og vorum við samþykktar með það sama og það var ekki nema ein kona sem sagði sig úr félaginu við það tilefni. Hugmynd um að halda óbeislaða fegurðarsamkeppni kom upp í febrúar og samin var fréttatilkynning sem sett var í nokkra fjölmiðla og önnur höfð tilbúin til þess að bakka með fyrirbærið en til þess kom þó aldeilis ekki.
Grímuballið var haldið í byrjun mars í 9. sinn og ég var í stökustu vandræðum, aldrei slíku vant, að finna mér búning. Endaði sem "bleika-konan" í öllu bleiku með bleika málningu og bleika hárkollu og var eiginlega dáldið flott en vann þó ekki til verðlauna. Vinna við óbeislaða fegurð hélt áfram og nóg var að gera hjá Matthildi sem gerðist fjölmiðlafulltrúi fyrirbærisins. Hún fór í á annan tug viðtala við erlenda fjölmiðla. Þar var Bretland fremst í flokki og nokkur viðtöl voru við BBC en annars höfðu allskonar fjölmiðlar samband allt frá Svíþjóð til Ástralíu. Keppendur skráðu sig í hrönnum og ákveðið var að halda keppnina á síðasta vetrardag í Hnífsdal.
Í apríl voru páskarnir og allt fjörið sem þeim fylgir. Aldrei fór ég suður var haldið á nýjum stað, í skemmu á höfninni og reyndist hún eiginlega of lítil. Mér fannst Sprengihöllin langbest af því sem ég sá. Hún spilaði á vondum tíma, einhverntíman á milli kl. 18 og 19 á laugardeginum, enda óþekkt þá en er pottþétt hljómsveit ársins nú þegar árið er liðið. Bærinn var fullur af fólki alla páskana og margar stjörnunar sem dvöldu hér allan tíman. Í apríl fór líka loka undirbúningur óbeislaðra fegurðar á fullt og unnið var dag og nótt síðustu sólarhringana fyrir keppnina. Keppnin var svo haldin með pompi og prakt síðasta vetrardag fyrir troðfullu húsi og varð algjörlega ógleymanleg öllum þeim sem á staðnum voru. Það besta var samt að kvikmyndagerðarmennirnir Hrafnhildur og Tína mættu á svæðið og veittu okkur eftirför í tvo daga og kvikmynduðu fyrirbærið og gerðu það ódauðlegt. Ég sótti um vinnu sem auglýst var hjá VÍS í byrjun apríl og var ráðin og hóf störf í lok mánaðins og var ég þá komin með vinnu allan daginn sem var eitthvað sem ég hafði stemmt að í rúmt ár.
Í maí gerðist það helst að við afhentum Sólstöfum afrakstur óbeislaðrar fegurðar og þegar allt var tínt til stóð þetta í hálfri millu sem er dágott og allir glaðir með það.
16. júní fórum við Hvatarkonur í dagsferð um Vestfirði. Lagt var að stað kl. 10 frá Ísafirði og ekið til Bíldudals með nokkrum stuttum stoppum. Á Bíldudal var snæddur hádegisverður á Vegamótum og síðan haldið áfram og komið við í sjoppum á Tálknafirði og Patró. Síðan var haldið í Breiðavík, stað sem öðlaðist landsfrægð á svipstundu þetta árið en þó á neikvæðan hátt. Þetta er frábær staður þó svo að fyrri saga sé vond og óþægileg þá er viðmótið þarna í dag algjörlega til fyrirmyndar. Við fengum á sjá fanga-herbergið í kjallaranum þar sem drengirnir voru læstir inni, þar var mjög sérstakt andrúmsloft. Staðarhaldari tjáði okkur að það kæmu ekki Íslendingar lengur á staðinn og fjöldinn hafði afpantað gistingu. Maður spyr sig, hvað er að fólki? Við fórum svo á Látrabjarg og svo ver stefnan tekin á Flókalund í 3 rétta kvöldverð. Við komum þó við á Vaðli þar sem við Elín systir stærðum okkur af ættaróðalinu í þessu stórkostlega umhverfi. Máltíðin í Flókalundi var fullkomin og allar konurnar sammála um það. Við komum svo heim einhverntíman eftir miðnætti eftir mikið fjör í rútunni á heimleiðinni. 17. júní var frekar ömurlegur þá aðallega vegna þess að hann var á sunnudegi og því ekkert aukafrí. Það á auðvitað bara að banna þetta. Annars var júní svo sem ágætur og góða veðrið sem einkenndi sumarið byrjaði í júní með sangríu og tilheyrandi sólböðum.
Það var ættarmót hjá föðurættinni minni helgina 13.-15. júlí í fyrsta sinn í 11 ár. Það var góð mæting og sólin skein sem aldrei fyrr þetta sumarið. Við fjölskyldan komum sólbrend heim. Ótrúlega gaman að hitta ættingjana og djamma með þeim. Það var auglýst eftir skemmtiatriðum á kvöldvöku sem haldin var á laugardagskvöldið og ákváðum við nokkur í græna liðinu að æfa fjöllista atriði og skírðum hópinn Kus-Kus frá Vaðli. Við vorum með söng og dans sem féll í kramið hjá flestum en þó heyrðust raddir sem vildu stöðva athæfið. Náðist atriðið á myndband og er sem sagt ódauðlegt.
Í ágúst bar auðvitað hæst mýrarboltamótið sem var að þessu sinni á verslunarmannahelginni. Glyðrur og Glommarar Langa Manga tóku þátt annað árið í röð og mikið var lagt í búninga. Setið var við sauma í marga daga og alls voru útbúnir um 70 búningar þ.e. bæði kvenna og karla og fyrir tvo daga því að sjálfsögðu stefndum við á úrslitakeppnina sem var á sunnudeginum. Markmið hjá Glyðrum var sett á að skora mark en það tókst því miður ekki en við komumst samt í 8 liða úrslit á einhverjum 2 steindauðum jafnteflum og gefnum leik. Glommarar komust líka í úrslit og spiluð einn skemmtilegasta leik mótsins sem endaði í hörku vítakeppni þar sem Glommarar töpuðu með einu marki. Í lokahófi Mýrarboltafélagsins varð Gló Magnaða fyrir valinu sem skemmtilegasti leikmaður mótsins og hélt uppi heiðri Langa Manga liðanna því að þetta var eina viðurkenningin sem kom í hlut Glyðru og Glommara þetta árið. Þann 18. ágúst var svo hinn árlega Lubbahátið sem tókst glimrandi eins og síðustu árin og enn klikkar ekki veðrið á þessum viðburði sem er hin mesta snilld. Á nýja árinu stendur til að halda líka jónsmessulubba og ef af verður mun maður að sjálfsögðu velta sé upp úr dögginni í þessu flotta umhverfi.
Í september fór ég í sveitina mína gisti eina nótt og fór svo á harmonikuball á Tálknafirði en það var nú aðallega vegna þess að kallinn var fenginn á trommurnar og ég fékk að fljóta með. Ég fór að hjálpa til í miðasölu og fór svona öðru hvoru inn til þess að kíkja á fólkið dansa. Gaman að horfa á fólk dansa gömludansana sem kann það vel. Við gistum svo í hinum stórglæsilegu sumarhúsum sem byggð voru fyrir sjóstangveiðina á staðnum. - Ég fór einnig til Reykjavíkur á milli flugvéla og það er mjög spes, aldrei prófað það áður.
Október var mjög viðburðaríkur. Hann byrjaði á því að það fór heill her frá Ísafirði í borg óttans á frumsýningu á myndinni óbeislaðri fegurð. Það var stútfullt bíó og við fréttum það seinna að það hefði verið uppselt á allar sýningar myndarinnar. Við fórum líka í frumsýningarpartý og hittum Þorstein Joð sem tók viðtal við Matthildi og Hrafnhildi. Við fórum líka nokkur út að borða kvöldið eftir og fórum á pöbbarölt. Mjög skemmtileg ferð. Myndin var síðan sýnd í Ísafjarðarbíó þann 26. á vertarnóttum en kvisast hafði út að myndin yrði sýnd fljótlega í sjónvarpinu þannig að það komust fleiri að en vildu en stemmningin var góð, rauður dregill fyrir utan og smá frumsýningarpartý eftir sýninguna. Afhenntir voru tveir aukatitlar. Ásthildur fékk inngöngu í félag athyglissjúkra og Matthildur afsalaði sér micheleen titlinum til Barða. - Fjölskyldan sat sveitt við að gera nýja heimasíðu bgmusik.is til þess að færa tengdapabba í afmælisgjöf en hann varð sjötugur þann 15. Síðan heppnaðist frábærlega og fékk þúsundir heimsókna fyrstu vikurnar. Menningarnefnd bæjarins hélt síðan uppá afmæli kappans með því að bjóða öllum bæjarbúum til veislu í Edinborgarhúsinu þann 27. Þar mætti ég og mínir og fengum að vita það að við ættum vís sæti á fremsta bekk. Þegar til kom þá var aðal kall bæjarins búinn að taka frá sætin okkar fyrir sig og sína og benti mér á að það væri laust aftast.
Nóvember var frekar rólegur og helst að nefna að óbeisluð fegurð var sýnd í sjónvarpinu og enn og aftur var maður stoppaður út á götu og þökkuð skemmtunin. - Ég náði upp skuldahalanum og kláraði að borga alla reikninga úr heimabankanum og átti afgang og keypti mér......... Gamli vinahópurinn hittist og skellti sér á ball. Það var bara alveg ágætt nema mér finnst Edinborgarhúsið sem ballið var haldið í bara alltaf leiðinlegt. Er búin að gefa því nokkra sénsa en kann engan vegin við að skemmta mér þar. Þetta hús átti að vera Menningarhúsið okkar með stóru emmi en hefur brugðist og er eiginlega bara unglingabúlla. Mjög leiðinlegt en satt.
Í desember var eiginlega alveg brjálað að gera í partýstandi ég fór á tvö jólahlaðborð, bæði á hótelinu og brúðkaup hjá Kristínu og Einari. Partý hjá tengdó, sem haldið var fyrir þá sem spiluðu á afmælisballinu í október, jólapartý hjá Gunnu, Litlu jól Langa Manga ég veit ekki hvað og hvað. Jólin voru svo nánast bara át og afslöppun. Keyptum enga flugelda í ár en horfðum á hina og það var bara ágætt. Óbeisluð fegurð kom í áramóta-annál á rúv og áramótaskaupið var mjög fyndið.
GLEÐILEGT ÁRIÐ 2008
Athugasemdir
Gleðilegt árið elsku besta og bestu kveðjur vestur til allra..
Hilsen
Harpa Hall
Harpa Hall (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 15:59
Árið! Hjó eftir því að þú minnist ekkert á kvennahljómsveitina SKRIÐURNAR sem spilaði svo EFTIRMINNILEGA á Aldrei fór ég suður.!!!
Sprengjuhöllin hvað??
Ylfa Mist Helgadóttir, 5.1.2008 kl. 22:38
Svona eiga jólakortin að vera.
Fara yfir árið í svona annáll.
Það er nú gott að þú virðist hafa gott minni.
glyðru-mafíósi (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 01:36
Sorry sá ekki Skriðurnar. Sprengihöllin var best af því sem ég sá sagði ég.
Gló Magnaða, 7.1.2008 kl. 08:30
Flottur annáll Glógló...... ég var svo heppin að hljóta þann heiður að umgangast þig í það miklu magni á síðasta ári að ég fékk að gera flest allt þetta líka gott að eiga góða að gleðin legt ár og vonandi verður 2008 eins skemmtilegt .......
Greta Skúla (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 08:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.