Lítil sönn jólasaga

Þegar ég fæddist var Elín amma mín 77 ára gömul og bjó á heimili okkar. Ég hef oft hugsað hvað ég var rosalega heppin að fá að alast upp með ömmu minni því hún var í rauninni besta vinkona mín og við bröllum ýmislegt saman því að amma var mikill prakkari og ég viðurkenni nú alveg að ég hafði ekkert rosalega mikið á móti því að prakkarast aðeins sjálf. 

Það var eitt sinn rétt fyrir jólin að við amma vorum einar heima. Ég hef verið u.þ.b. 10 ára og amma þá 87 ára. Jólapakkarnir voru farnir að streyma inn og við amma áttum báðar marga pakka. Ég man að ég fékk alltaf um það bil 25 - 30 pakka og amma fékk ennþá fleiri.  Við erum sem sagt einar heima og amma stingur upp á að við tökum sitt hvorn pakkann, hún einn af sínum og ég einn af mínum, og kíkjum í þá og lokum þeim svo aftur. Ég var auðvitað alveg til í það. Við tókum svo til við að opna pakkana. Ekki man ég lengur nákvæmlega hvað var í mínum pakka, það var alla vega eitthvað dót. En í ömmupakka var bók, ástarsaga, sem hét Blærinn í laufi eftir Einar frá Hergilsey, sveitunga okkar, og ömmu þótti mikið til koma og ég man hvað hún var glöð að fá þessa bók. Við gengum svo frá pökkunum aftur svo að enginn tæki eftir því að við hefðum átt við þá og þetta var leyndarmálið okkar.

Svo kom aðfangadagur og eftir að búið var að borða og opna jólakortin, sem manni fannst skipta hundruðum, það tók alla vega eilífðar tíma, þá var tekið til við að opna pakkana.  Amma hafði varla við að opna vegna fjölda pakkana sem hún fékk og þegar henni var réttur pakkinn sem hún hafði kíkt í nokkrum dögum áður þá stakk hún honum á bak við sig í sófann og ákvað að geyma hann. Svo klárar hún að opna pakkana í rólegheitunum, lítur svo yfir gjafirnar sínar og fer að skoða betur.  Svo segir hún "Hvar er bókin eftir hann Einar?" Úps.. þegar betur var að gáð var pakkinn óopnaður á bak við ömmu í sófanum.  Þannig komst upp um okkur því að við gátum ekki afsakað þetta enda minnir mig að öllum hafi fundist þetta svo fyndið að við skömmuðumst okkar eitthvað sára lítið fyrir uppátækið.

 

Gleðileg Jól allir ..........

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir

Þetta er ein allra besta jólasaga sem ég hef lesið í langan tíma

Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 18.12.2007 kl. 16:09

2 Smámynd: Linda Pé

hahah sæt amma þín!

Linda Pé, 19.12.2007 kl. 13:51

3 Smámynd: Linda Pé

 

ps. Alltaf fínn kveðskapur hjá henni Hjördísi!  Ég kann líka stundum að gera vísur: Þetta er vísa til þín, Eygló

"hérna í útvarpi heyrði ég það,

að hausinn sinn fyrst skyldi bóna.

Svo heim beint ég skundað' og skellti í bað,

og skrúbbað' í leiðinni skóna!"

Linda Pé, 19.12.2007 kl. 14:20

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Skemmtileg saga af ykkur ömmu þinni Gló mín, þá veit maður hvaðan prakkaraskapurinn þinn er upprunninn. 

Gleðileg jól og farsælt komandi ár.  Takk fyrir þetta sem er að líða.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.12.2007 kl. 13:07

5 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

Gleðilegt nýtt ár!!

Þú misskildir síðustu færslu hjá mér, ég talaði um lélegt Skaup og var þá að tala um árið 2006. Sko þetta var nefnilega annáll ársins 2007 skiluru....

Annars fannst mér Skaupið núna sæmilegt, gat alveg hlegið á nokkrum stöðum.

Harpa Oddbjörnsdóttir, 2.1.2008 kl. 16:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband